Читать книгу Neistaflug - Tracy Chevalier - Страница 12
ОглавлениеSEX
Þar sem fröken Pelham gekk upp að garðhliðinu eftir ánægjulegan dag í heimsókn hjá vinum í Chelsea kom hún auga á viðarspæninn sem Maisie hafði dreift úr framan við húsið, og yggldi sig. Í fyrstu hafði Maisie vanið sig á að dreifa úr kurlinu í vandlega snyrt O-laga hekkið í forgarðinum. Fröken Pelham hafði orðið að setja ofan í við hana eftir þá misgerð. Og auðvitað var betra að spænirinn lægi á götunni en í stiganum. En best af öllu væri þó að hafa engan spæni yfir höfuð, sem fæli auðvitað í sér að þarna væri engin Kellaway-fjölskylda til að búa hann til. Fröken Pelham hafði oft séð eftir því að hafa sýnt fjölskyldunni sem leigði herbergin á undan Kellaway-fólkinu slíka hörku. Þau höfðu verið með hávaða á nóttunni og barnið hafði grátið út í eitt undir lokin á dvöl þeirra, en að minnsta kosti lá ekki spænisslóðin á eftir þeim hvert sem þau fóru. Hún vissi líka að það var mikið af timbri uppi á loftinu; hún hafði orðið vitni að því þegar það var borið upp stigann. Að auki lagði alls kyns lykt frá íbúðinni og þar dundu hamarshögg sem fröken Pelham kunni alls ekki að meta.
Og núna: Hvaða dökkhærða ótukt var þetta sem hljóp út úr húsinu svo kurlið þeyttist af skósólunum hennar? Yfir henni var einmitt þessi slóttugi blær sem fékk fröken Pelham til að herða takið um töskuna sína. Síðan sá hún að þetta var Maggý. „Heyrðu stelpa!“ kallaði hún. „Hvað ertu að gera hérna, hlaupandi út úr mínum húsum? Hverju varstu að stela?“
Áður en Maggý náði að svara birtust tvær manneskjur: Jem dúkkaði upp að baki hennar og um leið opnuðust dyrnar að húsi númer 13 í Herkúlesarþyrpingunni og út gekk herra Blake. Fröken Pelham hörfaði eitt skref aftur. Herra Blake hafði aldrei sýnt henni annað en kurteisi – reyndar kinkaði hann kolli til hennar núna – en þó kom hann henni úr jafnvægi. Stjörf, grá augu hans minntu hana einatt á starandi fugl sem biði þess að gagga í hana.
„Eftir því sem ég veit best á herra Astley þetta hús, ekki þú,“ sagði Maggý hortug.
Fröken Pelham sneri sér að Jem. „Jem, hvað er þessi stelpa að gera hérna? Hún er varla vinkona þín, er það?“
„Hún – hún kom með sendingu.“ Jem hafði aldrei verið góður lygari, ekki einu sinni heima í Piddle-dal.
„Hvað kom hún með? Fjögurra daga gamlan fisk? Þvottatau sem aldrei hefur komist í tæri við sápu?“
„Nagla,“ skaut Maggý að. „Ég mun koma með þá reglulega, ekki satt, Jem? Þú átt eftir að sjá mig hérna miklu oftar.“ Hún vék út af stéttinni framan við húsið og inn í sjálfan forgarðinn þar sem hún gekk meðfram smágerðu hekkinu sem óx þarna í sínum einskisnýta hring og strauk hendinni eftir því.
„Burt úr garðinum mínum, stelpa!“ hrópaði fröken Pelham. „Jem, fáðu hana til að fara burt héðan!“
Maggý hló og byrjaði að hlaupa í kringum hekkið, hraðar og hraðar, og stökk síðan yfir það í miðjunni þar sem hún dansaði kringum tilsnyrtan runnann og boxaði við hann á meðan fröken Pelham æpti: „Ó, ó!“ líkt og sérhvert högg hæfði hana.
Jem fylgdist með Maggý boxa við laufkúluna og gat ekki annað en brosað. Honum hafði líka þótt freistandi að sparka í asnalegt hekkið, sem var svo ólíkt limgerðinu sem hann var vanur. Í Dorsetskíri var limgerði látið vaxa af tiltekinni ástæðu, til að halda dýrum burt frá engjum eða göngustígum og oftast gert úr rósum eða kristþyrni, elri og hesliviði, í bland við vafninga af bergfléttum og þyrniviði.
Bank á gluggann á efri hæðinni hreif Jem aftur til baka frá Dorsetskíri. Móðir hans starði niður á hann og handahreyfingar hennar gáfu til kynna að hann ætti að stugga Maggý burt af lóðinni. „Ömm, Maggý, ætlaðirðu ekki að sýna mér svolítið?“ sagði Jem. „Hann, hann – pabba þinn, ha? Pabbi minn vildi sko að ég færi, sko, til að semja um verðið.“
„Einmitt. Komdu þá.“ Maggý lét sem hún heyrði ekki hávær hrópin og skammirnar í fröken Pelham og hirti ekki um að stökkva yfir hringlaga hekkið heldur tróð sér í gegnum það þannig að sár brotinna greina myndaðist þar.
„Ó!“ hrópaði fröken Pelham í tíunda skiptið.
Um leið og Jem elti Maggý út á götuna gjóaði hann augunum á herra Blake, sem hafði staðið þarna kyrr án þess að segja nokkuð á meðan Maggý lék sér að hekkinu, með hendurnar krosslagðar yfir brjóstið. Hann virtist ekki kippa sér upp við hávaðann og lætin. Reyndar voru þau öll búin að gleyma því að hann væri þarna, því annars hefði fröken Pelham ekki hrópað „ó!“ tíu sinnum og Maggý ekki farið svona með hekkið. Hann horfði á þau sínu skýra, einbeitta augnaráði. Það átti lítið skylt við augnaráð Thomasar Kellaway sem einatt beindist út í fjarskann. Herra Blake beindi augum sínum miklu heldur að þeim sjálfum, og gangandi vegfarendum götunnar, og Lambeth-höllinni sem teygði sig til himins í fjarskanum, og að skýjunum að baki henni. Hann meðtók allt, án þess að fella yfir því dóm.
„Daginn, herra,“ sagði Jem.
„Sæll, vinur minn,“ svaraði Blake.
„Sæll, herra Blake!“ kallaði Maggý af götunni til að standa Jem ekki á sporði. „Hvernig hefur frúin það?“
Köll hennar vöktu fröken Pelham upp af doðanum sem fallið hafði yfir hana í nærveru Blakes. „Hunskastu burt héðan, stelpa!“ hrópaði hún. „Ég læt flengja þig! Jem, ekki hleypa henni aftur hingað inn. Og fylgdu henni að enda götunnar – ég treysti henni ekki eitt andartak. Hún stelur hliðinu ef við fylgjumst ekki með henni.“
„Já, frú.“ Jem lyfti augabrúnunum afsakandi í átt að herra Blake, sem þegar hafði opnað hliðið og gengið út á götuna. Þegar Jem kom til Maggý fylgdust þau með herra Blake ganga niður eftir Herkúlesarþyrpingunni að ánni.
„Sjáðu bara hvað hann gengur hégómlega,“ sagði Maggý. „Og sástu litinn í kinnunum á honum? Og hárið allt í flóka? Við vitum nú hvað hann hefur verið að gera!“
Jem hefði ekki lýst göngulagi herra Blakes sem hégómlegu. Hann steig fast í skrefið án þess þó að þramma. Göngulagið var stöðugt og ákveðið, líkt og hann væri á leið eitthvað ákveðið fremur en í spásseringu.
„Eltum hann,“ stakk Maggý upp á.
„Nei. Látum hann vera.“ Jem kom sjálfum sér á óvart með ákveðninni. Hann hefði haft gaman af að elta herra Blake á áfangastað hans – samt ekki eins og Maggý vildi gera það, af leik eða hrekk, heldur kurteisislega, úr fjarlægð.
Fröken Pelham og Anne Kellaway störðu enn á börnin. „Komum nú,“ sagði Jem og lagði af stað út Herkúlesarþyrpinguna í gagnstæða átt við herra Blake.
Maggý skjögraði á eftir honum. „Ætlarðu í alvöru ekki að koma með mér?“
„Fröken Pelham bað mig að fylgja þér út á enda götunnar.“
„Og ætlarðu bara að hlýða öllu sem þetta gamla skar segir þér að gera?“
Jem yppti öxlum. „Hún er húsráðandinn. Við verðum að hafa hana góða.“
„Jæja, ég ætla að fara og finna pabba. Viltu koma með mér?“
Jem hugsaði um óþreyjufulla móður sína, hughrausta systur sína, niðursokkinn föður sinn og fröken Pelham sem beið eftir að geta hellt sér yfir hann. Síðan hugsaði hann um göturnar í Lambeth og öll Lundúnastrætin sem hann hafði enn ekki kynnst, og hvernig það yrði að hafa leiðsögumann til að leiða sig eftir þeim. „Ég kem með þér,“ sagði hann og hægði á sér svo Maggý gæti náð honum, þar til þau gengu hlið við hlið.