Читать книгу Neistaflug - Tracy Chevalier - Страница 13
ОглавлениеSJÖ
Dick Butterfield gat leynst á einni af fjölmörgum krám hverfisins. Á meðan flestir tóku eina af hverfiskránum fram yfir hinar kunni hann best við að þvælast á milli og sótti fjölmarga drykkjuklúbba þar sem stallbræður og systur komu saman til að ræða sameiginleg áhugamál. Þessi kvöld voru alls ekki ólík öðrum kvöldum nema hvað bjórinn var ódýrari og söngtextarnir jafnvel enn klúrari. Dick Butterfield gekk stöðugt í nýja klúbba og sagði sig úr öðrum eftir því sem áhugamál hans breyttust. Í augnablikinu var hann félagi í kútteraklúbbi (eitt ófárra starfa hans í gegnum tíðina hafði verið staða bátsmanns á Thames, þótt langt væri nú um liðið síðan hann missti bátinn); ræðuklúbbi, þar sem félagarnir skiptust á um að halda skammarræður um pólitísk málefni yfir hinum, úr hásæti við enda borðsins; veðmálsklúbbi þar sem leikinn var billjard um smávægilegar upphæðir sem oftast nær dugðu ekki fyrir drykkjunum, en sem Dick Butterfield hvatti menn óspart til að hækka; og síðast en ekki síst var hann meðlimur í púnsklúbbi, sem var í langmestu uppáhaldi hjá honum, þar sem drukknar voru hinar margvíslegustu rommblöndur.
Kráa- og klúbbalíf Dicks Butterfield var svo flókið að fjölskylda hans vissi sjaldnast hvar hann var hverju sinni vikunnar. Þótt hann drykki yfirleitt í innan kílómetersradíus frá heimili sínu var engu að síður um tugi kráa að velja. Maggý og Jem höfðu þegar komið við á Hestakránni, Kórónukránni, Kantaraborgarkránni og Rauða ljóninu áður en þau fundu hann í góðu yfirlæti á háværasta staðnum af þeim öllum, Ætiþistlinum í Neðri-Mýri.
Eftir að hafa elt Maggý inn á fyrstu tvær krárnar hafði Jem ákveðið að bíða framvegis eftir henni fyrir utan. Hann hafði bara komið inn á eina krá síðan þau fluttu til Lambeth: Fáeinum dögum eftir að þau fluttu inn hafði herra Astley komið og tekið þá feðgana, Thomas Kellaway og Jem, með sér á Ananaskrána. Það rann nú upp fyrir Jem að Ananaskráin var rólegur staður, þótt á þeim tíma hafi hann verið forviða á drynjandi samræðum Philips Astleys og kátínu drykkjufólksins, sem margt hvert starfaði við sirkusinn.
Lambeth-mýrin var markaðstorg sem iðaði af fólki á leið frá Lambeth að Blackfriars-brú mitt í gegnum sölubásana, verslanirnar og þeytihnúta flutningavagnanna. Dyrnar að Ætiþistlinum stóðu opnar og söngurinn streymdi út á götuna, sem fékk Jem til að tvístíga á meðan Maggý skáskaut sér gegnum þvögu mannanna í gættinni.
Hann velti því fyrir sér hvers vegna hann væri að elta hana, og vissi það þó: Maggý var fyrsta manneskjan í Lambeth til að sýna honum snefil af áhuga og það var gott að eignast vin. Flestir strákar á aldur við Jem voru þegar komnir í sveinsnám eða farnir að vinna; hann hafði séð yngri krakka á ferli en ekki gefist færi á að tala við þá. Í fyrsta lagi var erfitt að skilja þá: Honum þóttu Lundúnahreimarnir og öll mállýskublæbrigðin úr sveitunum sem ægði saman í borginni allt að því óskiljanleg á stundum.
Börnin í Lambeth voru líka öðruvísi á ýmsan annan hátt – meira á verði og grunsemdafyllri. Þau minntu hann á ketti sem laumast inn í hús til að hlýja sér við eldinn þótt þeim lyðist það varla, hamingjusamir að koma inn í hlýjuna en með eyrun sperrt og glyrnurnar þandar, viðbúnir fætinum sem gæti birst hvenær sem er og sparkað þeim aftur út. Börnin voru oft dónaleg við fullorðna, eins og Maggý hafði verið við fröken Pelham, og komust upp með það ólíkt því sem hann hafði gert heima í þorpinu. Þau hæddu fólk sem þeim líkaði ekki við og hentu í það steinum, stálu mat úr handvögnum og körfum, sungu dónaleg lög; þau æptu, stríddu og skensuðu. Aðeins endrum og eins sá hann Lambeth-krakka fást við eitthvað sem hann gat hugsað sér að taka þátt í: róa bát niður ána, hlaupa syngjandi út úr ölmususkólanum í Lambeth-garði eða elta hund sem hafði strokið burt með hatt einhvers.
Svo þegar Maggý gaf honum bendingu um að fylgja sér inn á Ætiþistilinn þá elti hann hana og bauð hávaðanum og þykkum lampa-reyknum birginn. Hann vildi vera hluti af þessu nýja Lambeth-lífi, frekar en að fylgjast með því út um gluggann eða frá framhliðinu eða múrveggnum í garðinum.
Þótt enn væri ekki langt liðið á eftirmiðdaginn var kráin iðandi af fólki. Glymjandinn þarna inni var rosalegur þótt brátt tækist Jem að greina í honum einhvers konar melódíu. Hann þekkti ekki tónana en heyrði þó að þeir mynduðu eins konar lag. Maggý ruddi sér leið gegnum fólksfjöldann, að horninu þar sem faðir hennar sat.
Dick Butterfield var lítill, dökkleitur maður – augun, makkinn, húðin og jafnvel fötin voru öllsömul dökk. Hrukkuvefur teygði úr sér frá augnkrókunum og þvert yfir ennið, en engu að síður var unglegur, fjörmikill blær yfir honum. Í dag tilheyrði hann ekki neinum klúbbi, heldur var einfaldlega bara að drekka. Hann dró dóttur sína upp í kjöltu sér og tók undir sönginn ásamt öllum hinum svo glumdi í kránni þegar Jem náði loks til þeirra:
Og því er ég viss um hún hafni í hel,
því hún vill fá serðingu í messu!
Í lokalínunni söng þrumandi kór yfir krána svo Jem varð að halda fyrir eyrun. Maggý hafði tekið undir og horfði nú glottandi á Jem, sem roðnaði og starði niður í gólfið. Margt hafði verið sungið í Fimmbjöllum í Piddletrenthide, en ekkert í líkingu við þetta.
Eftir þennan skarkala færðist meiri þögn yfir staðinn, líkt og þegar þruma yfir höfði manns slær botninn í kröftugan storm. „Hvað ertu búin að vera að bralla, Maggý?“ spurði Dick Butterfield dóttur sína.
„Hitt og þetta. Ég var heima hjá honum –“ Hún benti á Jem. „Þetta er Jem, pabbi, og ég var að horfa á pabba hans smíða stóla. Þau eru nýkomin frá Dorsetskíri og búa í Herkúlesarþyrpingunni hjá fröken Pelham, við hliðina á herra Blake.“
„Fröken Pelham, já,“ sagði Dick Butterfield og hlakkaði í honum. „Gleður mig að hitta þig, Jem. Sestu nú niður og hvíldu á þér skankana.“ Hann benti hinum megin borðsins. Þar var enginn bekkur eða stóll. Jem leit í kringum sig: Allir stólarnir á staðnum voru uppteknir. Dick og Maggý Butterfield störðu á hann með nákvæmlega sömu svipbrigðunum og biðu þess að sjá hvað hann gerði. Jem íhugaði að krjúpa við borðið en vissi að það var ekki líklegt til að hljóta náð hjá þeim. Hann yrði að leita að lausum stól á kránni. Þetta var örlítill prófsteinn á verðleika hans, eitthvað sem búist var við af honum – fyrsta alvöru prófið í nýja Londonlífinu.
Það getur verið vandasamt að finna lausan stól á stappaðri krá og Jem hafði ekkert upp úr krafsinu. Hann reyndi að spyrja um stól en þeir sem hann spurði virtu hann ekki viðlits. Hann reyndi að kippa til sín kolli sem maður einn notaði sem fótskemil en fékk bara skömm í hattinn. Hann spurði þjónustustúlku sem hló að honum. Þar sem hann skrölti gegnum fólksmergðina velti Jem því fyrir sér hvernig á því stæði að svo margir gætu setið hér að sumbli í stað þess að vinna. Í Piddle-dal fóru fáir á Fimmbjöllurnar eða Nýju krána fyrr en á kvöldin.
Að lokum sneri hann tómhentur aftur að borðinu. Auður stóll var nú kominn þar sem Dick Butterfield hafði bent honum að setjast, og þau Maggý horfðu glottandi á Jem.
„Sveitastrákur,“ muldraði unglingur sem sat við borðið og hafði fylgst með öllu saman, þar á meðal hlátri þjónustustúlkunnar.
„Haltu saman á þér trantinum, Charlie,“ hreytti Maggý út úr sér. Jem giskaði um leið á að þetta væri bróðir hennar.
Charlie Butterfield var líkur föður sínum nema hann skorti bæði hrukkurnar og sjarmann; fríðari á einhvern hrjúfan hátt, með skítugt ljóst hár og spékoppa, en líka ör þvert yfir gagnaugað sem léði útliti hans ákveðna hörku. Hann var jafnandstyggilegur við systur sína og hann komst upp með, hafði atast í henni og kveikt í höndunum á henni frá fæðingu, allt þar til Maggý varð nógu stór til að sparka í hann þar sem öruggt var að hann fyndi til. Hann leitaði enn nýrra leiða til að ná sér niður á henni – barði stólana undan sætinu hennar, brimsaltaði matinn hennar, stal af henni sænginni á næturnar. Jem vissi ekki um neitt af þessu en hann skynjaði eitthvað í augum Charlies sem fékk hann til að forðast að horfa í augu hans, eins og maður forðast augu urrandi hunds.
Dick Butterfield skellti smámynt á borðið. „Náðu í drykk handa Jem, Charlie,“ skipaði hann.
„Ég ætla ekki –“ tafsaði Charlie um leið og Jem sagði: „En ég drekk e –“ Báðir stífnuðu upp undir stjarfanum í augum Dicks Butterfield. Og því sótti Charlie bjórkollu sem Jem langaði ekki í – ódýrt, vatnsblandað sull sem karlarnir á Fimmbjöllunum hefðu frekar hellt á gólfið en að leggja sér til munns.
Dick Butterfield hallaði sér aftur. „Jæja þá, hvað hefurðu að segja mér, Magg? Hvaða skandall gerðist nú inni í Lambeth í dag?“
„Við sáum soldið í garði herra Blakes, er það ekki, Jem? Í sumarhúsinu þeirra, með allar dyrnar opnar.“ Maggý sendi Jem slóttugt augnaráð. Hann roðnaði aftur og yppti öxlum.
„Þarna þekki ég mína,“ sagði Dick Butterfield. „Alltaf snuðrandi uppi það sem er að gerast.“
Charlie hallaði sér fram. „Hvað sáuði?“
Maggý hallaði sér líka fram. „Við sáum hann og konuna hans vera að gera það!“
Það hlakkaði í Charlie en Dick Butterfield virtist ekki kippa sér upp við þetta. „Hva, smá gredda, var það allt og sumt? Það er nú ekki meira en maður sér á hverjum degi með því að líta inn í húsasund. Farðu út og þú munt sjá það á næsta horni. Ekki rétt, Jem? Ég býst við að þú hafir séð þinn skerf heima í Dorsetskíri, er það ekki, strákur?“
Jem starði á bjórkolluna sína. Fluga barðist um í yfirborðinu og reyndi að verjast drukknun. „Séð nóg,“ muldraði hann. Auðvitað hafði hann séð þetta áður. Ekki bara dýrin sem bjuggu í kringum bæinn – hundar, kettir, kindur, hestar, kýr, geitur, kanínur, kjúklingar, fasanar – heldur líka fólk sem smokraði sér inn í skógarrjóður eða uppvið limgerði eða jafnvel á miðju engi þegar það hélt að enginn ætti leið hjá. Hann hafði séð nágranna sína gera það í hlöðunni, og Sam með kærustunni sinni uppi í hesliskóginum í Netlugili. Hann hafði séð það nógu oft til að láta það ekki lengur koma sér á óvart, þótt það gerði hann enn vandræðalegan. Það var ekki eins og það væri svo mikið að sjá – oftast bara einhvern fatabing í taktfastri hreyfingu, stundum föla þjóhnappa manns sem hreyfðust upp og niður eða titrandi kvenmannsbrjóst. Það var hin óvænta sýn þegar enginn bjóst við honum, innrásin í hið tilætlaða næði, sem fékk Jem til að roðna af skömm. Þetta var nokkurn veginn samskonar tilfinning og greip hann í þau fáu skipti sem hann heyrði foreldra sína rífast – eins og þegar móðir hans skipaði föður hans að höggva niður perutréð við enda garðsins sem Tommy hafði dottið úr, og sem Thomas Kellaway hafði neitað að fella. Seinna hafði Anne Kellaway fundið sér exi og gert það sjálf.
Jem dýfði fingri ofan í bjórinn og leyfði flugunni að klifra upp eftir honum og skríða í burtu. Charlie fylgdist með gáttaður af viðbjóði; Dick Butterfield brosti bara og skimaði augum til annarra gesta, eins og í leit að einhverjum öðrum að tala við.
„Það var ekki eins og þau hefðu bara verið að gera það,“ þrjóskaðist Maggý við. „Þau voru – þau höfðu – þau voru búin að klæða sig úr öllum fötunum, er það ekki, Jem? Við gátum séð það allt saman, eins og þau væru Adam og Eva.“
Dick Butterfield leit á dóttur sína af sömu velþóknun og hann hafði horft á Jem þegar hann reyndi að finna stólinn. Eins afslappaður og hann leit út fyrir að vera – lafandi á sætisbríkinni, bjóðandi fólki í glas, brosandi og kinkandi kolli – þá krafðist hann mikils af þeim sem hann umgekkst.
„Og veistu hvað þau gerðu á meðan þau voru að gera það?“
„Hvað, Magg?“
Maggý flýtti sér að hugsa upp það fáránlegasta sem fólk gæti tekið upp á í samförum. „Þau voru að lesa upp fyrir hvort annað!“
Charlie skellti í góm. „Hvað þá, úr dagblaðinu?“
„Það var ekki það sem ég –“ byrjaði Jem.
„Úr bók,“ greip Maggý fram í og brýndi raust sína til að yfirgnæfa glymjandann á kránni. „Ljóð, held ég það hafi verið.“ Nákvæmar lýsingar gerðu frásagnir á borð við þessa alltaf meira spennandi.
„Ljóð, já?“ endurtók Dick Butterfield og sötraði á bjórnum. „Ég býst við að það hafi verið Paradísarmissir, ef þau voru að leika Adam og Evu í garðinum sínum.“ Dick Butterfield hafði eitt sinn átt eintak af kvæðinu, í sæmilegum bókastafla sem hann hafði komist yfir og reynt að selja, og hafði lesið hluta af því. Enginn bjóst við því að Dick Butterfield væri mikill lestrarhestur en faðir hans hafði kennt honum, með þeim rökum að vissara væri að hafa sömu þekkingu til að bera og fólkið sem maður svindlaði á.
„Já, það var ljóðið, Perutrésmissir,“ samsinnti Maggý. „Ég heyrði þau segja það.“
Jem trúði varla því sem hann hafði heyrt og spurði: „Sagðirðu perutré?“
Dick gaf henni auga. „Paradísarmissir, Magg. Vandaðu það sem þú segir. En dokið nú aðeins við.“ Hann lokaði augunum, hugsaði sig andartak um, og hóf svo upp raust sína:
Þeim mætti veröld öll, og frjálsum fól
sinn friðarreit, og vöku hét á leið:
þau gætnum skrefum leiddust hönd í hönd
sinn einkaveg frá Edenslundi tvö.
Þeir sem næst voru borðinu störðu á hann; þetta voru ekki þess konar hendingar sem venjulega mátti heyra farið með á kránni. „Hvað varstu að segja, pabbi?“ spurði Maggý.
„Það eina sem ég man úr Paradísarmissi – allra síðustu línurnar, þegar Adam og Eva yfirgefa Eden. Fékk mig til að finna til með þeim.“
„Ég heyrði ekkert þessu líkt frá Blake-hjónunum,“ sagði Jem og fékk samstundis fast spark frá Maggý undir borðinu.
„Það var eftir að þú hættir að horfa,“ hélt hún fram.
Jem opnaði munninn til að þrátta meira en hætti svo við. Augljóst var að Butterfield-fjölskyldan vildi skreyta sögurnar sínar: Raunar var það skreytnin sem þau sóttu mest í og létu ganga til annarra. Þangað komnar tækju þær síðan á sig enn margbrotnara form þar til allir á staðnum tækju að ræða um Blake-hjónin í hlutverki Adams og Evu í garðinum sínum, jafnvel þótt það væri alls ekki það sem Jem hafði séð. En hvað átti hann svosem með að spilla þessari skemmtun þeirra – þó svo að hann myndi eftir skerpunni í augum herra Blakes, ákveðinni kveðju hans og staðföstu göngulaginu sem allt varð til þess að honum gramdist slíkt umtal? Hann vildi frekar segja sannleikann. „Hvað gerir herra Blake?“ spurði hann og reyndi frekar að beina samræðunum burt frá því sem þau höfðu séð í garðinum.
„Hvað meinarðu, fyrir utan að taka í konuna sína í garðinum?“ hlakkaði í Dick Butterfield. „Hann er málari og leturgrafari. Þú hefur séð prentvélina hans í framglugganum, er það ekki?“
„Vélina með stjörnuhandfanginu?“ Jem hafði sannarlega njósnað um þessa timbursmíð, sem var jafnvel stærri og umfangsmeiri en rennibekkur föður hans, og velt fyrir sér til hvers hún væri.
„Einmitt. Þú sérð hann annað veifið vinna á þessa vél, hann og konuna hans. Prentar bækur og svoleiðis lagað í þessu. Bæklinga, myndir, þvíumlíkt. Veit samt ekki hvort hann lifir á þessu. Ég sá soldið af þessu þegar ég reyndi að selja honum kopar í þynnurnar hans fyrst þegar hann flutti hingað af hinum bakkanum. Fyrir svona ári eða tveimur.“ Dick Butterfield hristi hausinn. „Kyndugar myndir, skal ég segja þér. Fullt af eldi og allsberu fólki með stór augu, hrópandi.“
„Þú meinar eins og í helvíti, pabbi?“ lagði Maggý til.
„Kannski. Ekki fyrir minn smekk, að minnsta kosti. Sjálfur er ég fyrir fjörlegar myndir. Ég get ekki ímyndað mér að margir vilji kaupa þetta af honum. Hann hlýtur að hafa meira upp úr því að leturgrafa fyrir aðra.“
„Keypti hann koparinn?“
„Nei. Ég áttaði mig strax og ég byrjaði að tala við hann að hann er ekki einn af þeim sem kaupa út í loftið. Hann er sinn eigin herra, hann herra Blake. Hann fer út og velur koparinn og pappírinn sinn sjálfur, og vandar valið.“ Dick Butterfield sagði þetta án beiskju; reyndar bar hann virðingu fyrir þeim sem féllu ekki fyrir brögðum hans.
„Við sáum hann með bonnet rouge hattinn sinn í síðustu viku, ekki satt, Jem?“ sagði Maggý. „Hann var mjög fyndinn með hann.“
„Hann er hugrakkari en margir aðrir,“ staðhæfði Dick Butterfield. „Ekki margir Lundúnabúar sýna svona opinberan stuðning við Frakkana, sama hvernig þeir röfla á kránum. F.R. er ekki hrifinn af þessu, og ekki heldur kóngurinn.“
„Hver er F.R.?“ spurði Jem.
„Forsætisráðherrann, stráksi. Herra Pitt,“ bætti Dick Butterfield við af röggsemi, ef ske kynni að Dorsetstrákurinn vissi ekki einu sinni þetta.
Jem laut höfði og starði einu sinni enn ofan í bjórinn sinn. Maggý fylgdist með baslinu á honum hinum megin við borðið og óskaði þess nú að hafa ekki tekið hann með sér að hitta föður sinn. Hann skildi ekki hvað það var sem Dick Butterfield sóttist eftir í fari fólks: Að stóllinn sem hann geymdi undir borðinu við fætur sér stæði aðeins því fólki til boða sem byggi yfir áræðinni hnyttni. Hann var alltaf á höttunum eftir nýjum leiðum til að afla sér peninga – hann sá sér farborða með smásmugulegu ráðabruggi sem var skipulagt á kránni – og hann vildi skemmta sér á meðan hann kom því í framkvæmd. Lífið var erfitt eftir allt saman – og hvað gerði það skemmtilegra en svolítill hlátur, svo ekki væri talað um ef græða mátti á honum í leiðinni?
Dick Butterfield sá þegar fólk sligaðist undan þessari kröfu. Hann erfði það ekki við Jem – ráðvillt sakleysi drengsins vakti einskonar hlýju innra með honum í garð hans, og pirring út í sín eigin börn. Hann ýtti Maggý skyndilega af hné sér svo hún datt í gólfið. Hún starði á hann særðum augum. „Guð hjálpi mér, barn, hvað þú ert að verða þung,“ sagði Dick og kippti hnénu upp og niður. „Þú ert búin að svæfa á mér löppina. Þú þarft að fara að finna þér þinn eigin stól núna, komin í dömustærð.“
„Enginn á eftir að láta hana hafa neitt samt, og ég á ekki bara við stólinn,“ hæddist Charlie að henni. „Litla belja með hænubrjóst.“
„Láttu hana vera,“ sagði Jem.
Allir þrír meðlimir Butterfield-fjölskyldunnar störðu á hann. Dick og Charlie hölluðu sér á olnbogunum fram á borðið en Maggý lá enn á gólfinu á milli þeirra. Þvínæst reiddi Charlie til höggs við Jem en Dick færði hönd sína á milli til að stoppa hann. „Láttu Maggý hafa stólinn þinn og finndu annan,“ sagði hann.
Charlie starði illur á Jem en stóð samt upp og lét stólinn detta aftur fyrir sig, og stikaði í burtu. Jem vogaði sér ekki að líta við til að fylgjast með honum en starði ofan í borðbríkina. Hann fékk sér gúlsopa af bjórnum. Hann hafði komið Maggý ósjálfrátt til varnar, eins og hann hefði komið sinni eigin systur til varnar.
Maggý stóð upp, rétti við stólinn hans Charlies og settist svo í hann grimm á svip. „Takk,“ muldraði hún að Jem, þótt rödd hennar lýsti ekki miklu þakklæti.
„Svo faðir þinn er trésnerill, Jem, ha?“ spurði Dick Butterfield og færði samræðurnar inn á svið viðskiptanna þar sem ólíklegt var að Jem myndi skemmta þeim frekar.
„Ekki beinlínis trésnerill, herra,“ svaraði Jem. „Hann ferðast ekki á milli bæja, og hann býr til alvöru stóla, ekki þetta spýtnadrasl sem trésnerlarnir gera.“
„Auðvitað, vinur, auðvitað. Hvar fær hann timbrið í þetta?“
„Í einum af timburgörðunum við Westminster-brú.“
„Hvaða garði? Ég er viss um að ég get reddað þessu ódýrar fyrir hann.“
„Hjá herra Harris. Herra Astley kynnti pabba fyrir honum.“
Dick Butterfield kipptist til við að heyra minnst á Philip Astley. Faðir Maggý gat oftast nær komið á góðum samningum en ekki þegar herra Astley hafði orðið fyrri til. Dick og leigusalinn hans sneiddu vandlega hvor hjá öðrum þótt á milli þeirra ríkti eins konar ólundarleg virðing. Ef Dick Butterfield hefði orðið auðugur sirkuseigandi eða Philip Astley smásvikahrappur, þá væru þeir sláandi líkir.
„Jæja, ef ég frétti af ódýrara timbri þá læt ég þig vita. Láttu mig sjá um þetta, vinur,“ bætti hann við, líkt og Jem hefði sóst eftir ráðleggingum hans. „Ég skal sjá hvað ég get gert. Ég kíki við einn daginn og á orð við pabba þinn. Það gleður mig alltaf að geta hjálpað nýjum nágrönnum. En áttu ekki að vera kominn heim núna? Þau hljóta að vera farin að velta fyrir sér hvað varð um þig.“
Jem kinkaði kolli og reis upp af stólnum. „Takk fyrir bjórinn, herra.“
„Sjálfsagt, vinur.“ Dick Butterfield krækti fótunum utan um stól Jems og dró hann aftur undir borðið. Maggý var ekki lengi að næla sér í gúlsopa af bjórnum hans Jems. „Bless,“ sagði hún.
„Sjáumst.“
Á leiðinni út gekk Jem framhjá Charlie í stórum hópi ungra manna. Charlie starði á hann og ýtti við einum vina sinna þannig að hann rakst utan í Jem. Unglingarnir hlógu og Jem flýtti sér út, ánægður með að losna undan Butterfield-fjölskyldunni. Hann grunaði þó að hann ætti eftir að hitta Maggý aftur, jafnvel þótt hún hefði ekki sagt „bless í bili“ í þetta skiptið. Hann langaði til þess, þrátt fyrir föðurinn og bróðurinn.
Hún minnti hann á haustbrómber sem litu út fyrir að vera þroskuð en gátu hvort tveggja verið súr eða sæt á bragðið. Jem stóðst ekki slíka freistingu.