Читать книгу Lífsgleði – sjálfsævisaga - Margit Sandemo - Страница 11

Оглавление

9. kafli

Við fluttum enn einu sinni.

Í þetta sinn upp á land en ekki langt. Mamma fékk fasta stöðu sem kennari í Valsberga, milli Strängnäs og Mariefred, enn í Sörmland, sem er stytting á Södermanland.

Við bjuggum í Valsberga þar til flest okkar komust á fullorðinsár.

Ég var rétt komin þangað þegar sitthvað tók að gerast.

Eitt sinn í ljósaskiptunum var ég úti að hjóla á þjóðveginum. Þá var það hægt án þess að þurfa að óttast að vera keyrður niður.

Uppi á hæð kom ég auga á nokkuð sem var eins og högg fyrir bringspalirnar og blóðið þaut fram í andlitið.

Maður hafði hengt sig í birkitré.

Ég lokaði augunum þegar ég hjólaði fram hjá og flýtti mér sem mest ég mátti heim.

Mamma þaut yfir til nágrannans sem tók þessu með stökustu ró. Það var vinnumaður sem hafði hengt sig þarna fyrir um 100 árum og síðan kom fyrir að ein og ein manneskja sá hann. Hann bætti því við að best væri að tala sem minnst um þetta, það gæti orðið leiðinlegt fyrir telpuna að það spyrðist út.

Næst þegar ég átti kvíðin leið þarna um sást hvorki tréð né maðurinn og ég sá þann hengda aldrei aftur.

Þetta var fyrsti fundur minn við afturgöngur... eða hvað?

Ég hef einmitt velt því mikið fyrir mér og ég man eftir dökkklæddum, smávöxnum manni sem gekk á undan mér eftir stígnum við Grunke í Valdres þegar ég var fimm eða sex ára. Hann beygði fyrir smáhæð og þegar ég kom þangað var hann horfinn. Ég skildi ekki hvað gat hafa orðið af honum.

Eða útslitna konan sem sat á kerrunni framan við verkamannabraggana í Bräkne-Hoby? Ég sá hana bara einu sinni og þegar ég spurði stelpurnar sem áttu heima þarna, störðu þær bara ringlaðar á mig. Engin kona var þarna sem lýsingin átti við. Ég afgreiddi það með því að hún hefði verið í heimsókn.

Eitthvað þessu líkt hafði gerst oftar en það var svo óljóst að ég gat ekki talið það með.

Verkamennirnir sem höfðust við í þessum bröggum fengu launin greidd í fríðu, aldrei í peningum. Þeir þræluðu bara og sáu aldrei fram á betri tíð.

Við sáum mikið af landshornaflökkurum á þessum árum. Þeim var gefinn matur og svolítið af fötum en helst vildu þeir peninga. Svo skáru þeir merki í hliðstaurana, um hvað væri að hafa í viðkomandi húsi, eða ekkert. Ég man eftir konu sem var að baka pönnukökur þegar flæking bar að garði. Góðhjörtuð konan gaf honum góðan stafla. Þegar hún kom út nokkru seinna, héngu pönnukökurnar í röð á handriðinu, alla leið niður.

Næstu nágrannar okkar voru fjölskyldur með börnum á aldur við okkur. Þau voru hreinlega villt! Við urðum fyrir áhrifum af ótrúlegum uppátækjum þeirra. Raunar voru þau verri en við og ég vil ekki einu sinni segja frá öllu sem þau gerðu af sér. Elsa mamma örvænti, svona lagað áttu börnin hennar ekki að læra en við fundum milliveg og tókum bara þátt í því sem var spennandi og krafðist hugrekkis, til dæmis að hjóla niður skíðastökkbraut, smíða trjákofa í skóginum og leggja rafmagnssnúrur þangað svo löggan kom og stöðvaði okkur. Við settum hvellhettubréf í söfnunarbaukinn í kirkjunni í eina skiptið sem mömmu varð það á að fara með okkur þangað. Við kepptum líka við söfnuðinn um hver yrði fljótari með sálmana. Við unnum og vorum raddsterk mjög. Svo misstum við endalaust tíeyringa á gólfið, það hringlaði svo skemmtilega í þeim. Ég sat á bak við súlu og gægðist á prestinn snögglega öðru hvorum megin, hvað eftir annað, svo honum varð á í messunni. Þetta með hvellhettubréfin var kært til lénsmannsins og líka að við hefðum reynt að gera við rafmagnsöryggi með stálþræði. Við það tækifæri sagði lénsmaðurinn með alvöruþunga:

-Í krafti embættis míns held ég sönnunargagninu!

Við áttum erfitt með að skella ekki upp úr.

Nágrannabörnin voru sex bræður og þrjár systur. Nöfn allra strákanna byrjuðu á L og sá yngsti hafði átt að heita Lukas en þá fannst föðurnum nóg komið svo snáðinn fékk tvöfalt nafn með öðrum upphafsstöfum. Systurnar hétu Anna-Maja, Majsan og Maj. Engin nýjungagirni á þeim bænum! Foreldrarnir létu sér nægja það litla sem þeir höfðu. Móðirin, lítil og hnöttótt, gekk yfirleitt í svörtum, glansandi undirkjól og yngsti sonurinn í náttfötum sem hann erfði frá Embrik. Þannig voru þau úti sem inni. Einn hlýjan sumardag lenti tveimur bræðranna saman við matborðið og annar kastaði gafflinum sínum í hinn, sem var ber að ofan. Gaffalinn stóð og titraði góða stund áður en einhver dró hann úr bringu drengsins. Embrik var boðið í matinn og ábætirinn, plómufrauð, var svo dísætur að eitlarnir herptust undan og hann náði varla andanum. Þá sagði einn drengjanna í ásökunartón:

-Mamma! Þú gleymdir að setja sykur í!

Á veturna útbjuggum við miklar sleðalestir, allir krakkarnir og hundurinn okkar, sex sparksleðar og álíka af magasleðum var bundið saman. Brekkan var brött og lá niður að veginum svo það varð að beygja til að lenda ekki úti í umferðinni. Þá valt allt saman. Það var hluti af skemmtuninni og mikið var hlegið.

Fyrir tveimur árum eða svo heyrði ég frá einum þessara bræðra. Þá voru liðin 70 ár síðan síðast. Það var skemmtilegt símtal, fullt af minningum og spurningum um þennan og hinn æskuvininn. Ég mundi sérlega vel atvik frá unglingsárunum. Ég kom seint heim úr gleðskap þegar ég heyrði rödd í myrkrinu:

-Komdu hingað, Margit, ég er að horfa á stjörnurnar.

Þar lá næstyngsti bróðirinn á ullarteppi framan við húsið heima hjá sér. Hann hefur líklega verið átta til tíu ára þá. Auðvitað fór ég til hans og lagðist á teppið hjá honum. Það var alveg stjörnubjart og ég, áhugamanneskja um stjörnufræði, útskýrði í miklum móð:

-Ef þú ferð niður eftir Óríonsbeltinu, lendirðu á Síríusi, skærustu stjörnunni á himninum. Raunar er hún þrjár stjörnur og þess vegna sindrar hún svolítið. Önnur öxlin á Óríon heitir Betelgeuze og er risi. Hún er eins stór og hringurinn sem Mars gerir um sólina, 450 milljónir kílómetra í þvermál og myndi gleypa sólina, jörðina og Mars tvisvar, skilurðu?

Hann var ekki viss. Ég hélt áfram því ég nýt þess að fræða þá sem nenna að hlusta:

-Annað hnéð á Óríon heitir Rigel og er líklega alskærasta stjarnan á himninum en hún er 540 ljósár í burtu og er með birtustig l8.000. Síríus, okkar skærasta, sem er bara níu ljósárum fjær er með birtustig 29.

-29 hvað?

Ég þoli ekki spurningar sem ég get ekki svarað. Hann beið þó ekki eftir svari en hélt áfram að spyrja:

-En eru þær ekki á sama stað?

-Í sömu átt, svaraði ég. -En það geta verið mörg ljósár á milli þeirra. Þess vegna þoli ég ekki stjörnuspeki. Einmitt þetta gerir hana gersamlega merkingarlausa.

Hann var fróðleiksþyrstur.

-Hvað er ljósár langt?

-Tíu milljarðar kílómetra, um það bil.

-Naumast!

Áður en hann kæmi með fleiri erfiðar spurningar flýtti ég mér að benda á Pólstjörnuna.

-Sérðu Karlsvagninn?

-Já, með kjálkum og öllu.

-Einmitt. Fylgdu tveimur öftustu stjörnunum upp á við, þar kemurðu að Pólstjörnunni, eins og hún er oftast kölluð. Hann dró línu með fingrinum í loftið.

-Hún er ekkert sérstök.

-Nei, hún er fremur lítil.

Ég man þetta atvik mjög vel, líklega af því stemningin var svo ljúf. Að liggja úti undir stjörnufestingunni og spjalla við lítinn dreng. Það var svo eðlilegt og maður fékk líka vissa tilfinningu fyrir óendanlegum himinvíddunum, fannst maður verða hluti af því. Sem maður er raunar.

Þegar við fórum heim, kallaði hann á eftir mér:

-Hvaða stjarna er næst?

-Proxima Centauri. Hún er líka þreföld og bara 4,2 ljósárum frá okkur.

-Af hverju hefur enginn farið þangað?

-Af hverju hefur enginn farið til tunglsins? spurði ég á móti. Þá skellihlógum við. Óhugsandi!

Ég man að alveg frá níu ára aldri óskaði ég þess að maður gæti haft lítið bíó heima til að horfa á. Ekki dreymdi mig þá um að sjónvarpið kæmi nokkrum árum seinna. Það var líka eitthvað óhugsandi. Eins og tungl- og geimferðir. Nei, það var bara eitthvað sem Hvell-Geiri aðhafðist í myndasögublöðunum.

Millistríðsárin voru yndislegur tími í náttúrunni.

Engir gráir vegir skáru sundur landslagið, engi og tún voru eitt blómahaf með dýrum á beit og húsin voru í notalegum, gamaldags stíl... að slepptum ferköntuðu, steindauðu funkis-húsunum í Täby og á öðrum stöðum sem vildu fylgja tískustraumunum.


Axel

Við krakkarnir áttum erfitt með trúmálin. Til dæmis ég, sem sá fallega, trygga verndarann minn öðru hverju, gat illa skilið af hverju mátti trúa á engla en ekki anda. Var það leyfilegt bara af því englar voru með vængi? Ég hafði aldrei séð neina veru með vængi og held að þær séu ekki til.

Axel var trúlausastur okkar á þessum tíma. Hann gekk um og söng: Ég elska sunnudagaskólann en fer aldrei þangað. Þegar krakkarnir syngja fæ ég í magann! Einu sinni á föstudaginn langa, þegar við höfðum mjög svo trúaða vinnukonu, spurði Elsa mamma okkur:

-Hvað eigum við að gera í dag?

Axel svarði að bragði: -Hanga á krossi og láta okkur leiðast. Vinnukonan gekk samstundis úr vistinni.

Við Eva vorum saman í herbergi og áttum að biðja kvöldbænir. Þær komu af sjálfu sér og skyldurækni fyrstu árin en svo fórum við að hugsa sjálfstætt. En vandinn var þarna og þetta varð að keppni um hvor var fljótari með bænina. Við sögðum ekkert hvor við aðra, lágum bara í rúmunum og allt snerist um hvor varð á undan að kalla amen. Með árunum tók það enga stund.

Nú finnst mér tímabært að sleppa Gamla testamentinu í kirkjulegu samhengi og nota það fremur eins og sagn- eða ættfræðirit. Í því eru ítarleg ættartré og góðir annálar um lítinn hóp fólks í Miðausturlöndum sem kom þessu öllu af stað, en hvers vegna skyldum við hanga í hugmyndum þess um guð sem er eigingjarn, hégómlegur, hlutdrægur, skapbráður, þröngsýnn, fordómafullur og afar ranglátur? Og ekki síst illgjarn! Lítum bara á hvernig hann kvaldi vesalings Abraham sem var skipað að drepa Ísak son sinn... bara af því guð hans vildi vita hvort hann væri nógu guðhræddur. Enn verri var sagan um Job. Ég veit varla önnur dæmi um slíka sjálfselsku og þekkti ég þó pabba minn. Hugsaði þessi guð ekkert um hina sem urðu að deyja til að Job gæti sannað ást sína á honum? Fjölskyldu Jobs, ættingja, þjóna og bústofninn? Sagan um Job er svo grimmileg að ég gat bara lesið hana einu sinni og aldrei síðan. Hvernig var svo með vesalings fólkið sem bjó í fyrirheitna landinu, þar sem smjör draup af hverju strái? Jú, það var rekið út í eyðimörkina og drepið að fyrirmælum þessa guðs, af því hans eigin þjóð skyldi fá landið.

Kristnir kalla sína trú kærleikstrú. Burt með Gamla testamentið, þá væri kannski hægt að byrja að tala um kristilegan kærleika! Bindum enda á öll trúarbragðastríð, þá væri ef til vill friður á jörðinni!

Ég veit að nútímaprestar eru miklu skárri, þeir sjá leiðina sem þarf að fara, andstætt þeim kirkjunnar mönnum sem í húsvitjunum hræddu fermingarbörn og vinnufólk með því að æpa: Eilíf refsing bíður ykkar! og hétu því síðan að þau fengju að stikna í Gehenna, sem sagt helvíti.

Raunar var Gehenna lítill, dapurlegur staður sunnan við Jerúsalem. Þar var fleygt dýrahræjum, líkum hengdra misindismanna og öðru rusli. Sorphaugar, ekkert annað. Ógnvænlegra var nú helvíti ekki. Orðið helvíti er komið úr fornnorrænu. Dauðagyðjan hét Hels vite... Refsing.

Hvernig lenti ég í þessum hugleiðingum? Stundum flögrar að manni hugsun og hrífur mann með sér út í bláinn... bæði varðandi æskuárin, fullorðinsárin, elliárin og nútímann. Já, auðvitað náðum við ekki að fremja öll þessi prakkarastrik á einu ári! En þar sem ég sé miklu betur það bjarta og jákvæða í tilverunni held ég gjarnan í þær minningar og lít fram hjá hinum.

En á hinn bóginn: Hver segir að sjálfsævisaga eigi að vera í nákvæmlega réttri tímaröð? Þótt maður stökkvi yfir eitt og annað þarf bara að halda þræðinum svo allt skiljist. Mér hættir þó til að gera ótrúlega margar snurður á hann þegar ég þarf að rekja mig gegnum alla útúrdúrana til að komast inn í söguna aftur.

Ég veit það alveg... af hverju ég fer í útúrdúra. Ég kvíði svo óskaplega fyrir því að segja sannleikann um tímabilið frá níu til tólf ára. En eitt er öruggt: Allt sem stendur í þessari bók er satt. Ég segi bara ekki allan sannleikann.

Jæja... aftur á tíunda árið mitt.

Þá fór Myrkrið að færast í aukana.

Lífsgleði – sjálfsævisaga

Подняться наверх