Читать книгу Lífsgleði – sjálfsævisaga - Margit Sandemo - Страница 14

Оглавление

12. kafli

Dag einn þegar mamma var á hárgreiðslustofunni, var þar líka lítill, hvítur hvolpur með svört eyru og ómótstæðilegt augnaráð. Hann vildi hvergi vera nema í kjöltu mömmu og fékk það auð­vitað. Hárgreiðslukonan sagðist ekki vita hvað hún ætti að gera við hann, hann væri ekki alveg hreinræktaður, strýhærður grefill, hausinn væri of breiður og búkurinn of samanrekinn. Mamma varð yfir sig ástfangin og hin konan ánægð með það.

Þannig kom Terry inn í líf okkar. Hann var fjölskylduhundur en ábyrgðin lenti smám saman á mér. Hann var afar sérstakur hundur (en það eru þeir allir), orkubolti sem var alls staðar með okkur. Ef við vorum öll í skólanum fékk hann að fara þangað með Elsu matmóður og þegar hún spilaði morgunsálminn á orgelið spangólaði hann með, nemendunum til mikillar kæti. Þegar hringt var út í frímínútur, spratt hann upp af sínum stað við kennaraborðið, greip fótboltann sem var nánast kominn í tætlur og þaut út með börnin á hælunum. Mikill eltingarleikur þar til hann lét ná sér og svo tók hann virkan hátt í leiknum. Terry var ótrúlega kátur og til í allt. Ef við stukkum fram af háum bakka í vatnið stökk hann líka, hann vissi ekki hvað vatnshræðsla var. Þegar ég hjólaði stökk hann upp á bögglaberann og hélt sér þar svo eyrun flöksuðust í vindinum. Hann tók þátt í öllum uppátækjum okkar, alltaf hress og kátur og óttaðist ekkert. Terry varð besti vinur minn. Svo var hann einkar þrautseigur betlari, gat setið uppréttur í hálftíma með breitt bakið upp við vegginn... og aldrei án árangurs. Það er svo auðvelt að missa matarbita á gólfið... reyndar náði hann sjaldnast að snerta gólfið. Terry fitnaði aldrei, hann hreyfði sig of mikið til þess og þetta var í þá daga sem hundar máttu vera frjálsir. Við sáum hann aldrei elta neitt dýr svo enginn vandi skapaðist. Hann skemmti sér alveg án þess því við vorum öll álíka lífleg og hann.

Svo skipti ég um skóla og fór í stúlknaskólann í Strängnäs en þar var Eva byrjuð áður. Axel fór í miðskólann og seinna gagnfræðaskólann eins og það hét þá. Mamma hafði bara ráð á því að láta eitt barn ganga menntaveginn og þá yrði það Axel, það var sjálfsagt. Hann var þó enn tveimur árum of ungur.

Bekkurinn var lítill, tíu stelpur eða svo og ég kunni vel við þær. Verra var eineltið af hálfu þeirra í eldri bekkjunum en mig langar ekki til að fara nánar út í það. Ég kunni lagið á því að kúpla mig frá heiminum þegar slíkt var í gangi. Það kom mér ekki við. Verst var að það náði til yngri bekkjanna líka en allt gekk samt vel. Ég var svolítið sér á parti, sagði það sem mér sýndist og klæddi mig ekki eftir neinum reglum. Slíkt er ekki vinsælt meðal krakka. Eitt sinn lenti ég í þrasi við náttúrufræðikennarann. Hún sagði bekknum að urriðinn væri barn laxins.

-Ne-hei! mótmælti ég hneyksluð.

Hún leit hvasst á mig. -Heyrðu mig, Margit. Hvor okkar veit betur, þú eða ég?

-Ég. Urriðinn er sérstök fisktegund sem lifir í fjallavötnum og...

Hún benti á dyrnar. -Fram á gang með þig! Ef þú hefur ekki hljótt færðu athugasemd.

Þá var bara að fara fram og setjast enn einu sinni á langa bekkinn í ganginum. Þetta var hvorki í fyrsta né síðasta skiptið.

Nú finnst mér það næstum óskiljanlegt en ég tók þátt í skátastarfi. Ég hefði ekki einu sinni nefnt það ef sérstakt atvik hefði ekki tengst því. Ég var aðeins í þessu í tvö ár og bara krakki þá. Svo missti ég áhugann.

Ég kem að því atviki seinna, fjalla fyrst svolítið um það sem ég hef áður kallað hitt.

Lífsgleði – sjálfsævisaga

Подняться наверх