Читать книгу Lífsgleði – sjálfsævisaga - Margit Sandemo - Страница 9

Оглавление

7. kafli

Það var að vori til og ég ekki alveg orðin níu ára. Ég var úti í holti að leita að blómum. Enn var svalt í veðri og nokkur gola. Grasið var þurrt og sinubrúnt. Systkini mín voru í skólanum og mamma líka. Ég átti að vera inni því ég var kvefuð en gat það ómögulega.

Hugurinn var angurvær eins og oft gerist á vorin og stundum á haustin. Það var svo margt innra með mér sem ég skildi ekki. Ótal þversagnarkenndar tilfinningar, furðulegar hugsanir og svo margt sem ég vildi segja en mig skorti orð yfir. Til dæmis ljótu andlitin sem komu þegar ég lokaði augunum fyrir svefninn. Þá þekkti ég ekki orðið dímon, sem ég notaði seinna, en þegar ég sagði einni vinnukonunni í Villunni frá þessu kallaði ég það Ljóta kalla með skrýtin andlit. Hún starði bara á mig og sagði svo: Þú ert ekki í lagi. Þú mátt ekki tala um svona! Ég verð hrædd við þig!

Þess vegna hafði ég ekki nefnt þetta við neinn annan.

Ég var að leita að bláu vorblómunum. Skyndilega nam ég staðar. Við stórt grenitré stóð vera sem hafði komið hægt í ljós.

Það var hávaxinn maður í mjög ljósum kyrtli. En ég tók ekki mikið eftir klæðnaðinum, svo starsýnt varð mér á andlitið. Hann var með axlasítt, ljóst hár og hlýlegt bros, hvorki ungur né gamall og virtist fullur visku. Augun voru það sérkennilegasta, blá, ljómandi af gæsku og hlýju, öruggi, ástúð og skilningi. Hann sagði ekki orð. Ég stóð eins og bergnumin en var ekki hrædd, síður en svo! Ég var bara glöð og ánægð. Fyrsta hugsun mín var að ég ætti vin. Svo leystist sýnin upp, ég sá tréð gegnum hana sem snöggvast og maðurinn var horfinn.

En augun, þessi augu! Þau voru hin sömu og ég hafði fimm eða sex sinnum áður séð í draumi.

Ég fann til vissu. Hann hafði ekkert sagt, en samt hafði ég fengið skilaboð sem festust í huga mér.

Vertu varkár! Ég er alltaf nálægt þér. Ég get varað þig við en ekki stjórnað þér.

Ég hugsaði um þetta á heimleiðinni. Ég hafði ekkert heyrt, þetta var öllu fremur tilfinning. Það hlaut að vera sterkur hugsanaflutningur. Ég hafði ekki stuðlað að þessu sjálf, hugsunin var ekki frá mér komin.

Viðvörunin. Vertu varkár!

Ég var aldrei varkár. Ég var einmitt heimskulega fífldjörf. Ég gekk iðulega eftir handriðum hátt uppi og hafði slengt mér af fimm metra háu dýfingabretti og fengið rosalegan skell. Líka farið í skíðastökk án þess að kunna það. Eldri krakkarnir sögðu jafnvel að ég storkaði örlögunum.

Eða byltan á hjólinu! Það rann í lausamöl, stýrið snerist hálfhring og hjólið lá flatt á veginum meðan ég rann langar leiðir, álíka flöt. Prestshjónin kveinuðu og krossuðu sig en ég lét sem ég kærði mig kollótta um sárin og blóðið sem rann úr þeim.

Nei, ég vissi ekki hvað varkárni var. En það voru hættur af þessu tagi sem ég hugsaði um þarna því ég vissi ekki hvað verndarinn minn góði átti við. Það var bara svo notalegt að vita af honum. Ég hvíslaði þakkarorð mörgum sinnum á heimleiðinni og vonaði að hann heyrði þau.

Ég sagði bekkjarfélaga mínum frá þessu. Hann hló bara háðslega, nei, ég fengi hann ekki til að trúa svona bulli. Væri ég að ganga af glórunni?

Líklega hefur hann sagt vinum sínum þetta því þeir glottu svo fyrirlitlega að mér um tíma. Upp frá því þagði ég um þetta en var alsæl yfir því að hafa séð sýnina. Hún opnaði mér gátt inn í heim sem ég hafði þá sáralítið kynnst.

Lífsgleði – sjálfsævisaga

Подняться наверх