Читать книгу Lífsgleði – sjálfsævisaga - Margit Sandemo - Страница 6
Оглавление4. kafli
Langa lestarferðin til Svíþjóðar var meira spennandi en við höfðum gott af. Fyrst skemmtum við okkur hið besta í gömlu Valdres-lestinni, stungum höfðinu út um glugga og nutum útsýnisins. Eimreiðin blés frá sér kolareyk sem vindurinn feykti iðulega framan í okkur svo við urðum sótsvört og æptum af kátínu. Loks lokaði mamma glugganum. Þá var allt orðið grátt inni.
Mér er hulin ráðgáta hvernig henni tókst að skipta um lest í Ósló með fjögur börn og mikinn farangur (Axel var þegar kominn til Bräkne-Hoby) en ég gleymi því aldrei þegar við fórum yfir landamærin. Við lágum í kojunum í svefnvagninum og lestin stóð kyrr í Kornsjö. Mamma var úti með farseðla og vegabréf. Lestin fór hægt af stað aftur og við sáum skiltið með SVÍÞJÓÐ í myrkrinu. Það var spennandi.
En tíminn leið og Elsa mamma kom ekki.
Loks kom lestarvörðurinn og leit inn. Við spurðum hvert upp í annað hvar mamma væri.
-Hún varð eftir í Kornsjö, svaraði hann og skellti hurðinni.
Áfall! Fjögur börn, það elsta sjö ára. Strákarnir fóru að skæla. Eva reyndi að íhuga hvað við ættum að gera. Hvernig ættum við að komast til Bräkne-Hoby í Blekinge? Við vissum að við þyrftum að skipta um lest tvisvar enn og yrðum sótt á stöðina, en hvaða stöð? Mamma var líka með miðana.
Við höfðum öll komið til Bräkne-Hoby áður en verið yngri og mundum fátt.
Dökkir skógar þutu hjá, það glampaði á lítil vötn, bjöllur hringdu þar sem farið var yfir vegi og þögnuðu svo aftur.
Þá opnuðust dyrnar loks og mamma kom inn. Þvílíkur léttir! Við grétum af gleði. Hún hafði setið í veitingavagninum og safnað kröftum, hélt að við værum öll sofandi.
En það hefði mátt lesa rækilega yfir lestarverðinum. Hrekkur hans var ekki fyndni, bara illgirni.
Ekki vissi ég þá að ég sæi ekki Valdres aftur fyrr en eftir mörg ár. Ég hélt að við færum fljótlega aftur heim til dýranna okkar. Við Eva áttum hvor sinn kálfinn, Stjörnu og Perlu. Hvolpurinn Finjur var orðinn stór. Og kettirnir... ég vissi ekki að búið var að selja jörðina. Sem betur fer áttum við enn bústaðinn í Grunke, það hefði verið slæmt hefði hann farið. Tímarnir voru mjög erfiðir og margir urðu að bregða búi. En um slíkt vissu börn ekkert.
Strax í lestinni langaði mig heim í Grunke aftur. Til þungbúnu, tignarlegu Hemsudalsfjallanna sem eru fallegust Valdres-megin. Þagnarinnar þar uppi milli þeirra og Vesturfjalla í Slíðru. Ég hef alltaf heillast af einsemd og þögn. Kannski síaðist það inn í mig um árið þegar ég lá sem ungbarn í lynginu og hlustaði á þögnina. Nei, hvaða vitleysa en heiðlóan var vinur minn. Varfærnislegt flaut hennar sem berst óralangt um heiðarnar og undirstrikar þögnina til fjalla... þess saknaði ég.
Ég vissi ekki að þessi Svíþjóðarferð markaði endalok. Ég hugsaði ekkert sérstaklega um að pabbi var ekki með okkur. Hann var svo oft fjarri langtímum saman að þetta var ekkert óvenjulegt.
Þinghúsið. Þar átti ég heima sem barn. Afi var þar dómari
Foreldrar mínir skildu aldrei löglega. Þeim fannst best að Anders Underdal yrði í Noregi og Elsa í Svíþjóð. Þeim hafði tekist að þrauka svo lengi í Valdres af því móðurforeldrar mínir sendu Elsu stundum peninga. Systur hennar, frænkur mínar, komu líka stundum í heimsókn og höfðu með sér ýmislegt góðgæti. Þær komu líka með eitt og eitt barna sinna.
Elsa mamma hélt áfram að sjá meira og minna fyrir pabba alla sína ævi.
Afi minn, Axel Reuterskiöld, dómarinn
Afi var sem sagt héraðshöfðingi, embættið samsvaraði sýslumannsembætti í Noregi en sænski titillinn var virðulegri. Það ergði hann alltaf að bróðir hans varð landshöfðingi, en ekki hann sjálfur.
Afi og amma hlutu að hafa verið sköpuð hvort handa öðru. Þau hétu Axel Gabriel Adam og Eva Beata Gabriella. Sem sagt Adam og Eva, Gabriel og Gabriella og Axel og Beata, eins og í gamalli þjóðvísu. Þau bjuggu í Þinghúsinu í Bräkne-Hoby, stóru, virðulegu húsi. Héraðsdómur hafði aðsetur í einni álmu, afgangurinn var íbúðarhúsnæði. Tvö risastór kastaníutré mörkuðu hliðið en annað þeirra rifnaði upp í miklu haustveðri. Að húsabaki var glæsilegur garður og öðrum megin við hann voru búðir farandverkamanna. Þegar afi sá ekki til okkar, lékum við okkur þarna.
Í huga mínum var Þinghúsið yfirþyrmandi staður, stór og fín höll. Þar voru fallegir viðarofnar, baðherbergi með rimlagólfi og baðker með ljónslöppum... og 18 hurðir. Einar voru að álmu þjónustufólksins sem hafði þar átta kompur í röð. Fyrrum tíð safnaðist fólk þar saman og spjallaði.
En það fór með Þinghúsið eins og svimandi háa klettinn í Móaskóginum, þar sem við höfðum fleygt okkur fram af. Ég vildi sýna Ásbirni og börnum mínum höllina sem ég hafði búið í sem barn. Já, það var meðalstórt hús... varla hægt að kalla setur. En það var að minnsta kosti herragarður. Fjórmenningarnir í bílnum sátu þögulir um stund en sögðu svo:
-Var þetta allt og sumt?
Fyrsti dagurinn í Svíþjóð byrjaði ekki vel. Axel, sem hafði verið þarna um hríð, ætlaði að sýna okkur staðinn. Herbergin voru ótrúlega mörg, bæði uppi og niðri. Svo ætluðum við að skoða álmuna með dómsalnum. Á leiðinni inn ganginn opnaði Axel einar dyrnar.
-Hér býr umboðsfulltrúinn... æ, afsakið! sagði hann og skellti hurðinni snöggt aftur. En við náðum að sjá skelfdan fulltrúa sem var einmitt að fara í nærbuxurnar og stóð á öðrum fæti. Axel vísaði okkur áfram að réttarsalnum. Embrik kom auga á langan gang og kastaði boltanum sínum þangað. Hann skoppaði af stað og við ætluðum á eftir en þar var þá ræstingakona og bandaði okkur frá. Við heyrðum næstum skvamp undan boltanum. Embrik hundsaði hættuna og bjargaði boltanum sínum og við flýðum til baka.
En eftir dómssalinn vildum við meira. Ég vitna í Evu í ættarannálunum: Þegar við systkinin héldum upp á fyrstu jólin okkar í Svíþjóð, í Bräkne-Hoby, fengum við sitt hvert leikfangahljóðfærið í jólagjöf. Það voru básúna, tromma, bjöllutromma og Embrik, sá yngsti, fékk spiladós. Við vorum himinlifandi. Heil hljómsveit! En hvar áttum við að spila? Við höfðum reynt mörg herbergi en alls staðar var sussað á okkur. Þá fengum við snilldarhugmynd. Dómssalurinn! Þar heyrði enginn til okkar og eflaust væri góður hljómur í svo stórri vistarveru.
Við gengum blásandi og trommandi inn ganginn. En... salurinn var fullur af karlmönnum! Þar stóðu yfir réttarhöld þar sem afi trónaði hæst við dómarapúltið. Hann varð sótrauður í framan og hvæsti lágt: ÚT! Út, krakkar, út! og benti reiðilega fram í ganginn. Við þvældumst hvert um annað og reyndum að troða okkur öll í einu út um gættina, nema Embrik, sem var minnstur, hafði verið síðastur og ekki séð afa. Hann hélt áfram inn í salinn og sneri spiladósinni: Kling, klang, kling, klang... Þegar hann staðnæmdist fyrir framan afa, áttaði vörðurinn sig og bar hann út.
Sumir hinna háu herra áttu víst erfitt með að halda sér alvarlegum og það var gaman til þess að hugsa að Embrik Underdal sem seinna varð þekktur sem stofnandi og stjórnandi hins virta Balalaika-kórs Suður-Bergen, skyldi hafa verið í hljómsveit áður en hann náði tveggja ára aldri.
Hér er ég í fangi móðurömmu minnar. Eva við hliðina
Einn af fyrstu dögunum lenti ég í þrasi við Axel bróður sem þá hafði búið hjá ömmu og afa um tíma. Til að fá skorið úr deilunni fór ég fram í eldhús og sagði æst:
-Axel segir að Gyðingaland heiti Palestína!
(Þetta gæti verið nútímasetning).
Þjónustufólkið var að borða. Eldabuskan, vinnukonurnar, fóstran, vinnumennirnir, ekillinn og garðyrkjumaðurinn störðu bara á mig. Ég sá að ekkert þeirra myndi svara mér svo ég fór inn aftur og hélt áfram að metast við Axel. Það var vonlaust því hann hafði verið vel fóðraður á þekkingu hjá afa. Auk þess að vera sérlega námfús.
En hann gat ekki sleikt á sér nefbroddinn með tungunni. Það gat ég!
Amma mín var ósvikin greifynja, bæði að ætterni og lífsstíl. Hún var áhrifamikil útlits, með sterka andlitsdrætti og blíðleg augu sem gátu þó skotið gneistum undir þykkum, svörtum brúnum. Silfurgrátt hárið var greitt eins og verið hafði síðan hún var ung á 19. öldinni, með skiptingu í miðju og hnút hátt í hnakkanum. Til hliðanna voru tveir háir vængir. Hún trónaði við annan enda borðstofuborðsins, afi við hinn og hversu háttsettur sem hann kunni að vera, réð hún. Við þjónustufólkið og okkur börnin talaði hún með höndunum, veifaði á mismunandi hátt eftir því hvort hún vildi saltið eða bað okkur að hafa lægra... en jafnframt var hún að spjalla við einhvern við borðið. Hún notaði táknmál við þernurnar um hvort meira væri til af einhverju eða allt búið í eldhúsinu og slíkt.
Mamma hafði alltaf auga með okkur og sömuleiðis frændfólkið með sínum börnum. Við bárum virðingu fyrir ömmu sem var svo góð, en vorum bara hrædd við afa. Eftir borðbænina sat hann þögull við sinn enda og leit aldrei til okkar nema einhver hóstaði eða ræki fótinn í, þá kom hvasst tillit. Við máttum ekki segja aukatekið orð og ef við vorum ekki að borða urðum við að hafa vísifingur á borðbrúninni. Hvað hélt hann að við gerðum undir borðinu?
Amma átti stóran grænmetisgarð og þar var meðal annars spergilbeð. Hún annaðist garðinn ekki sjálf en gekk um hann daglega og spjallaði við garðyrkjumanninn. Við fengum að hjálpa til við að hreinsa baunirnar við eldhúsbekkinn, það var gaman... og ljúffengt, en að næla sér í stikilsber var þó mest gaman. Við tíndum epli og átum yfir okkur af plómum, svo við fengum það sem Svíar kalla niðurgang, er magakveisa á heldri manna norsku en á Valdresmáli rennandi skita.
Þrátt fyrir eilífar helgistundir á heimilinu leið okkur mjög vel. Á vorin... já, vor í Bräkne-Hoby átti ég eftir að þrá síðustu 50 árin í Noregi. Í Valdres er vetur, snjór og klaki langt fram í maí en þá verður einhver sprenging og skyndilega er komið sumar. Í Suður-Svíþjóð vorar hægt. Strax í febrúarlok sjást hóffíflar, síðan bláar og hvítar skógarsóleyjar, þá koma villigæsirnar og beykiskógarnir taka á sig ljósgrænan lit. Það er hægt að fylgjast með hvernig allt þróast og í maí blómstrar allt. Að ekki sé minnst á brautarskurðina fulla af eldrauðum valmúa, bláar breiður af kornblómum, hvítar af prestafíflum og heilu húsin þakin klifurrósum.
Á sumrin svömluðum við í Bräkne-ánni sem var lygn og notaleg. Botninn var aurkenndur og varasamt að flækja sig í vatnaliljustilkunum en við létum okkur fljóta á bakinu meðan dásamlega fallegar tröllaslenjur flögruðu yfir okkur. Þessar flugur hafa fjóra langa vængi og geta flogið aftur á bak, jafnt sem áfram og jafnvel til hliðanna. Búkurinn er glansandi blágrænn og það var unun að virða þær fyrir sér. Stundum hlykkjuðust snákar fram hjá okkur í vatninu en við létum sem ekkert væri.
Við stíginn upp frá ánni stóð lítill kofi og í honum bjó agnarlítil kona. (Þetta hljómar eins og úr ævintýri.) Hún átti stórt og fallegt perutré sem hékk út yfir stíginn. Á því uxu gráperur, litlar og með grófgerðu hýði. Þær voru sælgæti, ég get enn fundið bragðið af þeim. Við tókum þær þegar við áttum leið um, en bara þær sem duttu, við slitum aldrei af trénu.
Á haustin fórum við út í skóg með Ingrid frænku og hundunum og tíndum sveppi. Hún hafði gott vit á sveppum og við spurðum hana um hvern einasta sem við fundum.
Einn daginn fékk ég að fara með mömmu og frænda í litlum bíl til Ronneby, ég þurfti víst til tannlæknis, en gleymdi kvíðanum því bíllinn var svo stórkostlegur og systkinin græn af öfund. Þetta var nýr, tveggja sæta blæjubíll með aukasæti aftan á og þar sat ég og hárið flaksaðist í vindinum.
Já, við vorum komin í heillandi umhverfi en stöðugt voru fjöllin í Valdres innra með mér og ég þráði þau.