Читать книгу Lífsgleði – sjálfsævisaga - Margit Sandemo - Страница 4

Оглавление

2. kafli

Í 20 ár hef ég þverneitað því að skrifa ævisögu mína. Af þremur ástæðum:

1. Ég er enn ekki nógu elliær til að muna meira en smáleiftur frá bernskuárunum.

2. Það mikilvægasta í lífi manns skrifar maður ekki um. Það er einkamál. Afgangurinn verður bara yfirborðskennt blaður.

3. Það er hámark sjálfsálitsins að halda að aðrir vilji lesa um líf manns.

Samt sit ég hér og skrifa. Líka heilmikið um það mikilvæga...

Einhver bað mig að skilgreina sjálfa mig. Það er óþægileg tilfinning. En... látum vaða!

Hugsjónamanneskja. (Sá sem trúir á það góða í öllu og öllum... eða eitthvað í þá veruna.)

Flóttagjörn. (Sá sem flýr veruleikann.)

Falslaus.

Óreiðusöm með afbrigðum. (En ég skipti um nærföt daglega og handritin mín verða að vera óaðfinnanleg. Punktur á skökkum stað og ég fleygi örkinni. Stafsetningarvilla væri ófyrirgefanlegt hneyksli. Hins vegar gæti ég búið í svínastíu ef nauðsyn krefði og uppáhaldsbolurinn minn er níu ára, snjáður og upplitaður, en mér líður vel í honum.)

Deilufælin svo jaðrar við ragmennsku.

Löt. (Velti því stundum fyrir mér hvort ég noti skriftirnar sem afsökun fyrir því að þurfa ekki að gera ærlegt handtak.)

Sjálfhverf, segja systkini mín. Mikið rétt!

Eitthvað af þessum eiginleikum kann að skýra það sem síðar gerðist.

Lífsgleði – sjálfsævisaga

Подняться наверх